Birt af: peturvalsson | mars 25, 2009

Rjómafærslur síðustu vikuna

Diskomo er mætt á blip.fm og má heyra hvað ég blípa þar.

Nýr Rjómi var tekin í gagnið í nýjustu viku og allur hinn líflegasti. Hér eru nokkrar færslur frá mér þaðan…

———

Birmingham sveitin Seeland sendi nýlega frá sér sína fyrstu breiðskífu, Tomorrow Today, sem er uppfull af hljóðgervlaríku rafvænu indípoppi. Það eru engir nýgræðingar sem skipa Seeland en sveitarmeðlimir eru þeir Tim Felton og Billy Bainbridge sem áður voru í sveitunum Broadcast og Plone. Líkt og þær sveitir má segja að Seeland sé hluti af „retro-futurist“ senunni en aðaleinkenni hennar voru notkun gamalla hljóðgervla og rafhljóða sem minntu á hljóðtilraunir BBC Radiophonic Workshop frá 7. áratugnum og hljóðrásir gamalla sci-fi kvikmynda. Seeland sækir þó áhrif víðar að en tónlist þeirra ætti t.d. að henta þeim vel sem hafa gaman af sveitum eins og Pram, Ms. John Soda og Sea and Cake.

[mp3] Seeland – Hang On Lucifer

———

Fyrir ekki alls löngu fannst L.A. búanum Justin Cage að ákveðinn samhljómur væri meðal jaðarsveita í heimarborg sinn og ákvað að gefa út safnplötu til að fanga þenna hljóm. Tónlistarfólkið sem hann hafði samband við virtust flestir hafa í hávegum plötuna RAM sem bítillinn fyrriverandi Paul McCartney gaf út árið 1971. Það þótti því upplagt að safnskífan yrði til heiðurs RAM og tók hver sveit að sér að túlka eitt lag af verkinu.

[mp3] Bodies of Water – Dear Boy

Nú í byrjun mars var platan RAM on L.A. svo gefin út stafrænt og má hala henni niður ókeypis af blogginu Aquarium Drunkard sem Cage heldur úti. Fjöldi sveita tók þátt í gerð plötunnar, margar hverjar lítt þekktar, en þar má einnig sjá kunnugleg nöfn – eins og eðal sveitirnar Radar Bros. og Bodies of Water. Platan gefur kjörið tækifæri til að kynna sér gróskumikla jaðarsenu Los Angeles um leið og eitt lofaðasta verk á sólóferli McCartneys er rifjað upp.

[mp3] Radar Bros. – Uncle Albert /Admiral Halsey

—————

Raftónlistarmaðurinn knái Chris Clark er mættur í rafheima með glænýja og ferska ep-plötu, Growls Garden. Clark hefur verið duglegur undanfarin ár að senda frá sér hressandi og framsýna raftónlist en nýja skífan þykir almennt það allra besta sem hann hefur gert. Ef maður hefur ekki enn kynnt sér Clark er því kjörið tækifæri að gera það nú.

[mp3] Clark – Growls Garden

Clark gefur út hjá Warp Records, mekka raftónlistarinnar, og er skífan með því áhugaverðasta sem útgáfan býður upp á þessa dagana. Útgáfan fagnar nú í ár 20 ára afmæli og hefur ýmislegt spennandi á prjónunum, m.a. ætlar Warp að gefa út safnplötu sem almenningur velur uppáhaldslög sín úr fórum útgáfunnar – kjósa má uppáhaldslög sín á síðunni www.warp20.net og taka þannig þátt í að búa til plötuna.

————-

Söngvasmiðurinn knái Bill Callahan sendir frá sér plötuna Sometimes I Wish We Were an Eagle í apríl á vegum hinnar fornfrægu Drag City útgáfu. Þetta er önnur platan sem Bill sendir frá sér undir eigin nafni en áður gaf hann út plötur undir nafninu Smog í gríð og erg.

[mp3] Bill Callahan – Eid Ma Clack Shaw

Stuttu áður en Bill Callahan lagði Smog nafninu átti hann leið um Ísland ásamt þáverandi unnustu sinni, Joanna Newsom, og taldi í nokkur lög á undan tónleikum hennar í Fríkirkjunni. Þá var hafði kappinn nýlega gefið út plötuna River Ain’t Too Much To Love sem m.a. inniheldur hið frábæra „Rock Bottom Riser“ sem ansi skemmtilegt myndband var gert við:

————

Það má alltaf deila um gildi tökulaga/ábreiða/þekja/kráka (cover-song) en þó að megnið af þeim eigi það til að vera einhæfar endurtekningar á upprunalegum útgáfum þá er alltaf jafn gaman að heyra vel heppnaða og frumlegar útgáfu af þekktum – jafnt sem óþekktum – slögurum.

Hljómsveitin Beach House tók sig nýlega til og hljóðritaði útgáfu af Queen laginu „Play The Game“ sem upprunalega kom út fyrir einum 30 árum. Lagið var ætlað á safnplötuna Dark Was The Night en varð þó útundan þegar til taks kom en fær að fljóta með sem aukalag fyrir þá sem kaupa skífuna á iTunes. Íslendingar eiga ekki kost á því og þess vegna er upplagt að leyfa lesendum að heyra útgáfuna hér:

[mp3] Beach House – Play The Game

Þó að þetta lag vanti á Dark Was The Night er þó óhætt að mæla með gripnum, enda inniheldur hann nýjar upptökur með Arcade Fire, Sufjan Stevens, Blonde Redhead, Yo La Tengo, Beirut o.fl. Svo er málefnið gott – en platan er seld til styrktar Red Hot samtökunum sem vinna að því hörðum höndum að vekja fólk til vitundar um AIDS sjúkdóminn.

Þeim sem vilja rifja upp upprunalegu útgáfu Queen af „Play The Game“ er bent á myndbandið á YouTube.

———

Breska hljómsveitin Fanfarlo gaf út fyrstu breiðskífu sína, Resevoir, nú í febrúar og er hún hinn fínasti gripur. Fanfarlo spilar hresst og melódískt indí-rokk sem ætti að gleðja aðdáendur sveita á borð við Arcade Fire og Beirut. Sveitin er þó engin eftirhermusveit heldur stendur föstum fótum með prýðilegar lagasmíðar og vandaðan flutning. Til glöggvunar er ágætt að gæða sér á tveimur vel völdum molum af plötunni:

[mp3] Fanfarlo – Luna

[mp3] Fanfarlo – Fire Escape

Það sem ætti einnig að vekja athygli Íslendinga á skífunni er umslagið – en ljósmyndin á framhlið þess er eftir Lilju nokkra Birgisdóttur. Umslagið sýnir tvær stúlkur en önnur þeirra (sú grímuklædda) er systir Lilju, Sigurrós, sem nýtur þess heiðurs að heimsþekkt hljómsveit er nefnd í höfuðið á henni. Söngvari og gítarleikari téðar sveitar er einmitt bróðir systranna… þar hafið þið það.

————

Aðal afinn í hinni frábæru hljómsveit Grandaddy er kominn aftur á kreik. Nú eru þrjú ár síðan Jason Lytle leysti upp þá mætu sveit, einmitt um þær mundir sem síðasta skífa þeirra, Just Like The Fambly Cat, kom út. Nú í maí er svo væntanleg fyrsta sólóplata kappans sem hlotið hefur heitið Yours Truly, the Commuter og nýlega leyfði Lytle netverjum að heyra forsmekkinn af gripnum. „Brand New Sun“ heitir lagið og gæti þess vegna hafa komið af hvaða Grandaddy skífu sem er – sem ætti jú að gleðja þá sem saknað hafa sveitarinnar.

[mp3] Jason Lytle – Brand New Sun

Á meðan við bíðum svo eftir plötunni sjálfri er ekki úr vegi að rifja upp eitt gamalt Grandaddy myndband:

———

Human Beinz - Nobody But Me

Ein áhugaverðustu fyrirbrigði í tónlistarsögunni eru svokölluð „eins-smells-undur“ (one-hit-wonders), sveitir sem spretta fram með einn smell en falla síðan í gleymskunnar dá – yfirleitt jafn skjótt og þær spruttu fram. Ein þessara sveita var bandaríska sveitin Human Beinz sem árið 1967 tók upp stórkostlega útgáfu af laginu „Nobody But Me“ eftir soul-sveitina Isley Brothers. Í meðförum Human Beinz breyttist lagið úr soul-slagara í dansvænt garage rokk en lagið er ekki síst eftirminnilegt fyrir innganginn/niðurlagið þar sem orðið „no“ er sungið yfir hundrað sinnum – enda var lagið eitt sinn valið neikvæðasta Top 40 lag allra tíma.

[mp3] The Human Beinz – Nobody But Me

Lagið komst hæst í 8. sæti Billboards listans í ársbyrjun 1968 en Human Beinz féllu smátt saman í gleymsku þrátt fyrir að þeir hafi sent frá sér tvær plötur í kjölfar smellsins. Helst áttu þeir bakland í Japan þar sem tvö önnur lög sveitarinnar vegnuðu vel en það dugði þó ekki til að halda sveitinni saman og hætti hún störfum árið 1969.

„Nobdoy But Me“ hefur þó haldið vinsældum sínum og sprettur reglulega upp hér og þar. Lagið er reglulega valið á safnplötur með áhugaverðum smellum 7. áratugarins og heyrðist m.a. kvikmyndunum Kill Bill vol. 1 og The Departed. Lagið hefur einnig orðið öðrum innblástur, en undirritaður kynnist því reyndar í meðförum The Residents sem „sömpluðu“ bút úr því á Meet The Residents (1974) og svo fyrir nokkrum árum tók franski plötusnúðurinn Pilooski sig til og endurhljóðblandaði verkið með fínum árangri.

[mp3] The Human Beinz – Nobody But Me (Pilooski Edit)

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

Flokkar

%d bloggurum líkar þetta: